Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir fæddist í Reykjavík 21. júlí 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 6. janúar 2025.
Guðrún var dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur, f. 1902, d. 2000, og Sæmundar E. Ólafssonar, f. 1899, d. 1983. Systkini Guðrúnar voru Ólafur, f. 1926, d. 1935, Ólafur Þórður, f. 1940, d. 2013, og Erna, f. 1942, d. 1992.
Guðrún ólst upp á Sjafnargötu 2 í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskóla, Ingimarsskóla og Húsmæðraskóla Reykjavíkur.
Hinn 14. júlí 1956 giftist hún Þorsteini Bjarnasyni, f. 1930, d. 2013. Foreldrar hans voru Ágústa Ólafsdóttir, f. 1904, d. 1990, og Bjarni Matthíasson, f. 1893, d. 1945. Árið 1956 fluttu ungu hjónin á Fornhaga 17 í Reykjavík og áttu þar heima allan sinn hjúskap. Guðrún flutti á hjúkrunarheimilið Grund árið 2023.
Þau Þorsteinn eignuðust þrjá syni, Sæmund Elías, f. 1958, Óla Ágúst, f. 1963, d. 2001, og Jón Viðar, f. 1971. Sæmundur er kvæntur Svönu Helen Björnsdóttur og eiga þau þrjá syni, Björn Orra, f. 1993, Sigurð Finnboga og Þorstein, f. 1996. Þeir eru allir í sambúð, Björn Orri með Önnu Suleiku Küenzi, þau eru búsett í Zürich í Sviss, Sigurður Finnbogi með Andreu Björtu Garðarsdóttur og Þorsteinn með Margréti Stellu Kaldalóns en þau eru búsett í Reykjavík. Óli Ágúst var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur, dóttir þeirra er Rakel Guðrún, f. 1995. Hún er í sambúð með Guðmundi Halldórssyni og er heimili þeirra í Kaupmannahöfn. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur. Heimili þeirra er í Reykjavík og eiga þau fjögur börn, Þorstein Jakob, f. 2010, Guðmundu, f. 2012, Lovísu Kristínu, f. 2016, og Jóhönnu, f. 2017.
Útför Guðrúnar fer fram frá Neskirkju í Reykjavík í dag, 21. janúar 2025, kl. 15.
Minningar um Guðrúnu til fjörutíu og fjögurra ára streyma fram. Þau hjónin, Guðrún og Þorsteinn, tóku vel á móti konuefni sonarins. Hún spurði af áhuga um ætterni mitt og vildi vita allt um mína hagi. Það kom henni á óvart ég skyldi vera verkfræðinemi og fann ekki strax tengingu við húsmóðurina í mér. Mér varð fljótt ljóst að ég var komin inn í fjölskyldu sem var ólík þeirri er ég ólst upp í. Guðrún sagði allt, einnig það óþægilega, og hún hækkaði róminn óhikað ef henni þótti þurfa. Hún var sjómannskona, vön að axla ábyrgð á heimili og börnum í oft löngum fjarvistum Þorsteins. Sem dæmi má nefna að Sæmund, frumburðinn, bar hún ein til skírnar á jóladag því Þorsteinn var á sjónum. Presturinn spurði hissa um föðurinn og hún svaraði því til að hann væri á sjó og gæti því ekki verið viðstaddur.
Guðrún gekk hreint til verks og var jaxl. Þótt hún væri lágvaxin fyllti hún út í hvert rými með með sterkri nærveru sinni og sterkri rödd. Hún var góðum gáfum gædd, talaði tæpitungulaust, las mikið og var stálminnug. Hún hafði áhuga á fólki og vildi skilja fólk. Hún var óspör á lýsingarorð í efsta stigi og engan þekki ég annan sem talað hefur um himneskar kartöflur. Ef umræðuefnið var henni mikilvægt leiftruðu augun hvössu bliki og hendurnar hófust á loft til áhersluauka. Hún var rammpólitísk og gamli Alþýðuflokkurinn var hennar flokkur.
Leið Guðrúnar lá í Húsmæðraskóla Reykjavíkur þar sem hún naut þess að læra allt sem laut að myndarlegu heimilishaldi. Hún hafði ekki aðeins áhuga á mataruppskriftum, matseld og bakstri, heldur voru hannyrðir og blómarækt einnig stór þáttur í lífi hennar. Í áratugi hafði hún umsjón með stóra og fallega garðinum við Fornhagablokkina sem hún bjó í. Rósirnar voru stolt hennar. Hannyrðirnar hennar eru listaverk, sér í lagi útsaumurinn og handmálaða postulínið. Fötin sneið hún og saumaði á sig sjálf. Hún var listræn, óhrædd við liti og vildi hafa fallegt í kringum sig. Fornhagaheimilið var hlaðið málverkum og margs konar listmunum. Hún hafði gaman af því að punta sig og vera vel til fara, þá með vel klippt og lagt hár, með fallega lakkaðar neglur og bleikan eða rauðan varalit.
Það var ekki fyrr en elsti sonur okkar Sæmundar, Björn Orri, fæddist að við náðum að tengjast vel. Stuttu síðar fæddust tvíburarnir Sigurður Finnbogi og Þorsteinn og Guðrún fékk nóg að gera í langþráðu ömmuhlutverki. Þá loksins var ég tilbúin til að taka við öllum þeim kærleika og umhyggju sem Guðrún hafði að gefa mér og mínum og það af miklu örlæti. Þegar Þorsteinn hætti á sjónum tóku við hamingjuár hjá þeim hjónum. Við Sæmundur höfðum bæði mikið að gera í okkar störfum og þurftum sannarlega á hjálp afa og ömmu á Fornhaga að halda. Stússið með barnabörnin gaf þeim báðum mikla lífsfyllingu. Barnabörnin urðu alls átta og öll voru þau frá fæðingu fallegustu og yndislegustu börn sem fæðst hafa undir sólinni.
Það er alltaf góð byrjun að hæla börnum við foreldrana og ég viðurkenni að ofurást Guðrúnar á sonum mínum bræddi hjarta mitt. Afi varð einkabílstjóri sonanna en amma prjónaði á þá fatnað og eldaði og bakaði út í eitt flesta daga, kanilsnúða, pylsusnúða, pítsusnúða og annað sem drengirnir höfðu lyst á. En amma hafði líka sinn háttinn á hlutunum. Pítsurnar hennar nutu t.d. ekki alltaf mikilla vinsælda. Þær voru þykkar brauðbökur með ýmiss konar ofanáleggi og segja má að þar hafi tilraunakennd eldamennska farið fram. Öðru máli gilti um kransakökubaksturinn. Ég hef ekki tölu á öllum kransakökunum sem hún bakaði, en sem dæmi má nefna að hún bakaði tvær kransakökur fyrir brúðkaupið okkar Sæmundar sem ég síðan setti saman og skreytti. Það er ekki að ástæðulausu að boðið verður upp á kransakökubita í erfidrykkjunni hér á eftir. Þess má geta að í matseld og bakstri Guðrúnar var hollusta ekki endilega meginmarkmið. Aðalatriði var að matur og kökur smökkuðust vel og þá þýddi lítið að spara smjörið, rjómann og sykurinn. Guðrún var reyndar mikill sælkeri og vildi alltaf eiga nóg af sælgæti í nammiskápnum fyrir börnin sagði hún, því hún væri sjálf ekki neitt fyrir sælgæti.
Það er varla hægt að segja að Guðrún hafi haft mikinn áhuga á leikfimi, en sundið var hennar helsta heilsurækt og hún var ekki ánægð nema komast í sund dag hvern á meðan heilsan leyfði. Því áhugamáli deildu þau Guðrún og Þorsteinn.
Guðrún átti það til að ganga yfir mörk mín og annarra. Það gerði hún oft meðvitað til að kalla fram viðbrögð, en uggði þá ekki alltaf að sér. Með tímanum lærðum við að meta hvor aðra að verðleikum og virða mörk. Milli okkar þróaðist skilyrðislaus kærleikur og umhyggja og við lærðum að treysta hvor annarri. Það hefur aukið mannskilning minn og þroskað mig að þekkja Guðrúnu og mega deila lífshamingju minni með henni. Enginn hefur hrósað mér meira í lífinu en Guðrún. Faðmur hennar var mér og mínum alltaf opinn. Það var alveg sama hvenær ég kom eða hringdi, alltaf var mér tekið fagnandi og boðin hjartanlega velkomin.
Fyrir áratugum síðan tóku tengdaforeldar mínir upp á því að bjóða fjölskyldunni til sín, alla sunnudaga eftir messu. Við hittumst hjá þeim á Fornhaganum með börnin okkar og þáðum rausnarlegar veitingar. Það var skrafað, hlegið, teflt og við nutum þess að vera saman. Eftir lát Þorsteins árið 2013 héldum við áfram að koma saman hjá Guðrúnu eftir messu á sunnudögum. Síðustu tvö árin á Grund höfum við Sæmundur heimsótt hana svo að segja daglega og notið þess að rifja upp góða daga og gleðjast yfir lífshamingjunni. Hana dreymdi alltaf mikið og talaði oft um drauma sína við mig. Ef hana dreymdi blóm, þá var það fyrir barni innan fjölskyldunnar. Hana dreymdi t.d. fyrir öllum barnabörnunum. Stundum dreymdi hana sig sjálfa og þá var hún oftast ung að árum og naut þess að hlaupa um. Þannig sé ég hana líka fyrir mér sem stelpu á Sjafnargötunni, með ljósa lokka, káta og lífsglaða, hlaupandi á leið til vinkonu eða kannski á leið að hitta Þorstein sinn.
Guðrún var þakklát almættinu fyrir lífið og fólkið sitt. Hún efaðist ekki um að hennar biði annað líf í einhverri mynd að loknu þessu jarðlífi. Hún var þess fullviss að þá yrði hún laus úr fjötrum síns slitna jarðneska líkama og gæti á ný svifið léttstíg í fang Þorsteins, sem alla tíð var ástin í lífi hennar.
Við leiðarlok kveð ég mína elskulegu tengdamóður með djúpum söknuði. Efst í huga er þakklæti fyrir kærleik hennar og umhyggju.
Guð blessi minningu Guðrúnar.
Svana Helen Björnsdóttir.