Það blasti við stórfengleg sýn í Kórnum í Kópavogi í síðustu viku þegar ég gekk inn á Mannamót markaðsstofa landshlutanna. Viðburðurinn er hluti af Ferðaþjónustuvikunni sem haldin er á hverju ári. Troðfullur salur af sýningarbásum og fólki sem beið spennt eftir samtali og tækifæri til að kynna hinar ýmsu afurðir, afþreyingu eða hugmyndir. Og af nógu var að taka.
Markaðsstofurnar eru samtals sjö á landinu. Þær starfa með yfir þúsund fyrirtækjum og 61 sveitarfélagi um allt land. Gróskan var ótrúleg og orkan í salnum áþreifanleg.
Ég náði samtali við ótal einstaklinga sem flestir voru nokkuð bjartsýnir og spenntir fyrir komandi mánuðum. Ég smakkaði alls kyns hnossgæti og safnaði bæklingum um fjölbreyttar leiðir til gistimöguleika og afþreyingar um allt land sem ég hlakka til að heimsækja. Það var áhugavert að finna að fólk hafði mikinn áhuga á að ræða við
...