Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að ríki Evrópu þyrftu að þróa sameiginlega varnarstefnu og auka útgjöld sín til varnarmála til þess að tryggja öryggi álfunnar gegn utanaðkomandi ógnum.
Ummæli Selenskís féllu á hinni árlegu efnahagsráðstefnu í Davos, en hún hófst á mánudaginn. Sagði Selenskí í ræðu sinni þar að ríki álfunnar þyrftu að standa á eigin fótum og leggja hart að sér til þess að geta orðið sterk og ómissandi í alþjóðamálum.
„Við þurfum sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnu og öll ríki Evrópu þurfa að vera reiðubúin til þess að eyða eins miklu í varnarmál og hin raunverulega þörf krefur, ekki bara eins miklu og þau hafa vanist eftir áralanga vanrækslu,“ sagði Selenskí, sem ítrekaði að Evrópa yrði að geta tryggt sitt eigið öryggi án aðkomu annarra.
...