Útlit er fyrir að Naomi Girma verði dýrasta knattspyrnukona heims en Englandsmeistarar Chelsea eru í þann veginn að kaupa hana af San Diego Wave í Bandaríkjunum fyrir um 900 þúsund pund, 155 milljónir íslenskra króna. Girma er 24 ára og var kosin besti varnarmaður bandarísku deildarinnar árin 2022 og 2023 en hún varð ólympíumeistari með Bandaríkjunum síðasta sumar. Hún er komin með 44 landsleiki fyrir bandaríska liðið.