Kristín Heiða Kristinsdóttir
Gaman er að koma á nýja staði, sem ég gerði nýlega þegar ég flaug með litlum fyrirvara með góðri vinkonu til Madeira. Þessi portúgalska eyja undan ströndum Afríku er unaðsreitur, mikil náttúrufegurð, allt gróið milli fjalls og fjöru, brattlendi víða, heimafólk elskulegt og húsin lágreist, allt svo notalegt. Og sólskinið kærkomið á þorranum sem og ylurinn. Kvöld eitt þegar ég var komin upp í ból ákvað ég að kíkja á þáttaröð sem ég hafði frétt að væri komin á Netflix-streymisveituna, Hundrað ára einsemd, byggð á skáldsögu kólumbíska rithöfundarins Gabriels García Márquez. Ég bar í brjósti blendnar tilfinningar, óttaðist það sem oft gerist þegar uppáhaldsbók fer á hvíta tjaldið: vonbrigði. En ótti minn var ástæðulaus, ég sökk strax á kaf í heim þess töfraraunsæis sem einmitt heillaði mig upp úr skónum forðum þegar ég las bókina í
...