Gleði Brasilíumenn fögnuðu sigrinum á Svíum vel.
Gleði Brasilíumenn fögnuðu sigrinum á Svíum vel. — AFP/Stian Lysberg Solum

Portúgal og Brasilía eru öllum að óvörum komin í átta liða úrslitin á heimsmeistaramóti karla í handknattleik en Svíþjóð, Spánn og Noregur eru öll úr leik þó ein umferð sé eftir í milliriðli þrjú sem er leikinn í Bærum í útjaðri Ósló, höfuðborgar Noregs.

Portúgalar skelltu Spánverjum í gær á sannfærandi hátt, 35:29, og Brasilíumenn fylgdu í kjölfarið með gríðarlega óvæntum sigri á Svíum, 27:24.

Portúgal er með sjö stig og Brasilía sex en þó Svíþjóð og Noregur séu með fjögur stig hafa bæði liðin tapað fyrir Brasilíu og eiga því ekki möguleika. Allt bendir til þess að Portúgalar vinni riðilinn því þeir eiga eftir að mæta Síle. Þeir mæta því Þýskalandi í átta liða úrslitum keppninnar en Brasilíumenn glíma við dönsku heimsmeistarana.