Friðrik Ólafsson fæddist 26. janúar 1935 og varð því níræður í gær. Friðrik er fjórði elsti núlifandi stórmeistarinn í heiminum og sá elsti núlifandi sem var í fremstu röð. Langlífi er í ættinni og eru eldri systur hans tvær enn á lífi.
Friðrik fæddist í Reykjavík og ólst upp við Laugaveginn, skammt fyrir innan Hlemm.
Hann byrjaði að tefla sjö ára gamall og lét fljótt til sín taka. Hann nefnir fjórar ástæður fyrir því: Kunningi hans hafði kennt honum að tefla og þeir tefldu saman, faðir hans var skákáhugamaður og Friðrik fylgdist með honum tefla, Taflfélag Reykjavíkur var til húsa skammt frá heimili Friðriks og svo hafði Friðrik alltaf haft gaman af spilum. „Ég spilaði m.a. lúdó og annað borðspil sem heitir Refurinn og lömbin þar sem þurfti að nota taktík og það var góður stökkpallur fyrir skákina.“
...