Willum Þór Þórsson íhugar að bjóða sig fram í kjöri á forseta Íþrótta- og ólympíusambands Íslands á þingi þess í maí. Hann staðfesti það við RÚV í gær. Lárus Blöndal hefur verið forseti ÍSÍ frá 2013. Willum var heilbrigðisráðherra á árunum 2021-2024 en datt af þingi í kosningunum 1. desember. Hann lék lengi knattspyrnu, lengst af með KR og Breiðabliki, og þjálfaði síðan um tuttugu ára skeið þar sem hann vann þrjá meistaratitla með KR og Val.