Frá slysstað árið 1985. Bifreiðin var mjög mikið skemmd og líklega ónýt.
Frá slysstað árið 1985. Bifreiðin var mjög mikið skemmd og líklega ónýt. — Morgunblaðið/Júlíus

Tveir ungir menn voru fluttir á slysadeild eftir bílslys í Reykjavík snemma árs 1985. Var annar þeirra í rannsókn er Morgunblaðið leitaði nánari upplýsinga skömmu áður en blaðið fór í prentun þetta sama kvöld en hinn hafði hlaupið út af slysadeildinni á sokkaleistunum. Varð lögreglan að gera menn út af örkinni til að leita hans og var hann ófundinn er síðast fréttist. Mennirnir voru grunaðir um ölvun.

Slysið vildi þannig til að fólksbifreið af gerðinni Volkswagen Golf var ekið austur Sætún og rakst þá utan í annan bíl. Kastaðist hún við það yfir götuna og lenti á ljósastaur, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins. Tveir menn voru í bílnum og kastaðist farþeginn í gegnum framrúðuna og út á götuna. Aðkoman var heldur ljót enda bíllinn talinn gjörónýtur og voru sendir tveir sjúkrabílar á vettvang ásamt hjúkrunarfólki.