Sigur Leikmenn Danmerkur fagna öruggum sigri á Portúgal í gærkvöldi. Danir freista þess að verða heimsmeistarar í fjórða skiptið í röð.
Sigur Leikmenn Danmerkur fagna öruggum sigri á Portúgal í gærkvöldi. Danir freista þess að verða heimsmeistarar í fjórða skiptið í röð. — AFP/Jonathan Nackstrand

Danmörk tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik HM 2025 í handbolta karla með því að leggja Portúgal örugglega að velli, 40:27, í undanúrslitum í Ósló í Noregi.

Danir hafa orðið heimsmeistarar í þrjú síðustu skipti og eru nú komnir í úrslitaleik HM í fjórða skiptið í röð. Danmörk er eina liðið sem hefur unnið heimsmeistaramót þrisvar í röð og freistar þess nú að gera það fjórum sinnum. Í úrslitum mætir Danmörk liði Króatíu, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, á morgun. Portúgal og Frakkland eigast við í leiknum um bronsið fyrr um daginn.

Í leiknum í gærkvöldi var nokkurt jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Danir þó ávallt skrefinu á undan. Staðan í hálfleik var 20:16 en í síðari hálfleik setti Danmörk í fluggír og vann að lokum auðveldan sigur.

Mathias Gidsel fór einu sinni sem áður fyrir Danmörku og var markahæstur í leiknum með níu mörk. Rasmus Lauge var skammt undan með átta mörk.

António Areia var markahæstur hjá Portúgal með fimm mörk.

...