Talskilaboð frá leikstjóranum Justin Baldoni til leikkonunnar Blake Lively, þar sem hann biður hana afsökunar á hrokafullum viðbrögðum sínum, hafa nú litið dagsins ljós. Variety greinir frá því að upphaflega hafi Daily Mail sagt frá sex mínútna afsökunarbeiðni Baldonis þar sem leikstjórinn hljómi örvæntingarfullur í tilraun sinni til iðrunar. Í skilaboðunum tekur Baldoni fram að klukkan sé tvö um nótt en á hvaða degi skilaboðin voru hins vegar tekin upp er ekki vitað. „Ég er langt frá því að vera fullkominn. Ég er gallaður maður, eins og konan mín getur vottað,“ segir Baldoni í upptökunni. „Ég mun klúðra hlutunum. Ég mun segja eitthvað rangt. Ég mun líklega fara í taugarnar á þér en ég mun alltaf biðjast afsökunar og finna nýja leið. Það get ég fullvissað þig um. Mér þykir leitt að hafa látið þér líða svona.“