Birgitta var í kaupstaðarferð í höfuðborginni í vikunni og notaði tækifærið til að hitta blaðamann og ræða um ritstörfin og bústörfin. Birgitta býr á Syðri-Löngumýri í Húnavatnssýslu en þar hefur hún búið mestalla ævi. Hún var aðeins rúmlega tvítug þegar skáldgyðjan bankaði upp á og hefur ekki látið hana í friði síðan.
Skandall í sveitinni
„Ég er alin upp á bænum, en ég var ættleidd og var því lítil prinsessa þarna á heimilinu,“ segir Birgitta, en hún var ættleidd nýfædd og á ekki systkini.
„Foreldrar mínir og blóðforeldrar þekktust en ég var skandall í sveitinni því blóðfaðir minn hélt fram hjá með annarri konu og úr varð ég. Svo var ég gefin á annan bæ og fékk nýja foreldra og nýja fjölskyldu. Seinna meir, þegar ég eignaðist ekki börn, fannst mér lítið mál að ættleiða.
...