Gömlu brýnin í Foreigner voru á dögunum limuð inn í eftirsóttan elítuklúbb á Spotify þegar slagarinn þeirra sígildi I Want To Know What Love Is frá 1984 náði milljarði spilana á streymis­veitunni. Fyrir í klúbbnum voru listamenn á borð við Bítlana,…
Ætli Foreigner-liðar séu búnir að læra inn á ástina?
Ætli Foreigner-liðar séu búnir að læra inn á ástina? — AFP/Thos Robinson

Gömlu brýnin í Foreigner voru á dögunum limuð inn í eftirsóttan elítuklúbb á Spotify þegar slagarinn þeirra sígildi I Want To Know What Love Is frá 1984 náði milljarði spilana á streymis­veitunni. Fyrir í klúbbnum voru listamenn á borð við Bítlana, The Rolling Stones, Queen, AC/DC, Fleetwood Mac, Elton John og örfáir fleiri. Þess má geta að hvorki Bob Dylan né Pink Floyd eiga aðild að klúbbnum. Engin pressa, strákar!

„Það er mikill heiður að komast í Milljarðaklúbb Spotify,“ sagði Mick Jones, stofnandi Foreigner og höfundur lagsins, af þessu tilefni. „Þessi áfangi er vitnisburður um þann ævarandi kraft sem býr í I Want To Know What Love Is og ótrúlegan stuðning áhangenda okkar um allan heim. Þegar við horfum til 50 ára afmælis okkar minnir þetta okkur á það hversu mikla þýðingu tónlistin okkar hefur haft fyrir svo marga gegnum árin.“