Hinn myrti hafði brennt Kóraninn og Svíar útiloka ekki aðild erlendra afla

Enn eitt morðið framið í Södertälje. Að þessu sinni var fórnarlambið maður sem hafði valdið uppnámi um allan heim. Salwan Momika var kristinn Íraki sem hafði leitað hælis í Svíþjóð. Hann var mikill andstæðingur íslamista og vakti athygli á málstað sínum með mótmælafundum þar sem hann lagði eld að helsta trúarriti þeirra, Kóraninum.

Í eitt skipti vafði hann beikoni utan um bókina og brenndi úr henni blaðsíður. Momika vissi hvernig hann átti að fara að því að æsa upp andstæðinga sína og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Arabaríki um allan heim fordæmdu Svía og nokkur þeirra kölluðu sendiherra sína í Svíþjóð heim. Í Bagdad var gerð árás á sænska sendiráðið. Recep Erdogan, forseti Tyrklands, brást hinn versti við. Þetta var á sama tíma og umsókn Svía um inngöngu í Atlantshafsbandalagið var til umfjöllunar, og nei frá Tyrkjum hefði dugað til að henni hefði verið hafnað.

...