Fyrr í vikunni skrifuðu fulltrúar frá Listasafni Reykjavíkur og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs undir samstarfssamning um sýninguna Hraunmyndanir (e. Lavaforming) sem verður framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025. Í tilkynningu segir að sýningin verði sett upp í Listasafni Reykjavíkur í ársbyrjun 2026 og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar Listasafns Reykjavíkur, verði ráðgefandi sérfræðingur í aðdraganda sýningarinnar ytra og hafi yfirumsjón með uppsetningunni í Listasafni Reykjavíkur. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr, sem verður opnaður 10. maí og stendur til 23. nóvember. Höfundar Hraunmyndana/Lavaforming eru s.ap. arkitektar með Arnhildi Pálmadóttur í fararbroddi sem sýningarstjóra og listrænan stjórnanda verkefnisins, en þar er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð.
...