Mette Frederiksen
Mette Frederiksen

Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana segir landa sína í hópi bestu bandamanna Bandaríkjanna. Danir hafi áratugum saman staðið þétt við bakið á þessu stórveldi í vestri og hermenn Danmerkur barist og fallið við hlið þeirra.

Þetta sagði hún í ljósi ummæla J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna sem í samtali við Fox sagði Dani ekki standa sig nógu vel í málefnum Grænlands. Hélt hann því fram að Danir væru ekki lengur „góðir bandamenn“.

Frederiksen sagðist ekki kæra sig um þá túlkun Vance að Danir væru ekki „góðir bandamenn“ í ljósi sögunnar. Hún lagði enn fremur áherslu á að ráðamenn í Kaupmannahöfn myndu halda áfram að gera sitt til að tryggja að samskipti Danmerkur og Bandaríkjanna yrðu áfram góð.