Frjálsir Þessir rússnesku hermenn sem hér sjást virðast frelsinu fegnir.
Frjálsir Þessir rússnesku hermenn sem hér sjást virðast frelsinu fegnir. — Ljósmynd/Varnarmálaráðuneyti Rússlands

Kænugarðsstjórn og Kremlverjar segjast hafa skipst á stríðsföngum og er hvor fylking sögð hafa fengið 150 hermenn til baka. Sambærileg skipti hafa nokkrum sinnum áður átt sér stað frá því að innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hófst.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir suma af sínum mönnum hafa verið í haldi Rússa í yfir tvö ár. Lítið er vitað um líkamlegt ástand þeirra. Skrifstofa forsetans hefur birt mynd af hluta þessara manna og sáust þeir þá bíða eftir flutningi heim og voru sumir þeirra búnir að breiða þjóðfána Úkraínu yfir axlir sínar og bak. Hvort þessir menn verði sendir aftur á víglínuna síðar er óvíst.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands hefur staðfest fangaskiptin. Að sögn hans voru hermenn Rússlands fyrst sendir til Hvíta-Rússlands þar sem þeir fengu aðhlynningu og læknisskoðun. Að því loknu verða þeir svo sendir aftur til heimahaga.

Áfram er hart barist í austurhluta Úkraínu og Kúrsk-héraði Rússa.