Íslenska karlalandsliðið í handbolta fellur niður um eitt sæti á nýjum styrkleikalista Handknattleikssambands Evrópu eftir að liðið endaði í níunda sæti á HM í síðasta mánuði. Ísland var í áttunda sæti listans fyrir ári en er nú í níunda. Króatía, sem Dagur Sigurðsson þjálfar og endaði í öðru sæti á HM, fer upp úr níunda sæti og í það fimmta. Fjórfaldir heimsmeistarar Dana eru efstir, Frakkar í öðru sæti og Þjóðverjar, sem Alfreð Gíslason þjálfar, í því þriðja.