Óskar Ingi Húnfjörð fæddist 7. febrúar 1955 á Blönduósi. „Ég ólst upp við miklar annir foreldra minna sem ávallt störfuðu við sjálfstæðan rekstur, en faðir minn var þá bakarameistarinn á staðnum.“
Óskar hóf nám í bakaraiðn í Iðnskólanum á Akureyri og fékk útgefið meistaraskírteini sitt 17. september 1979.
Óskar kynntist konunni sinni Brynju Sif þegar hún kom á Kvennaskólann á Blönduósi haustið 1975 og giftu þau sig 9. september 1978. „Við höfum alla tíð starfað saman að margvíslegum rekstri. Þegar við kynntumst starfaði ég við bakstur með föður mínum og fjölskyldu í Brauðgerðinni Krútt, en tók síðar við starfi framkvæmdastjóra í fjölskyldufyrirtækinu Húnfjörð hf. Það fyrirtæki var rekstraraðili Krútt-brauðgerðarinnar og svo einnig Krútt-kökuhúss sem var vel þekkt sem fyrsta konditorí landsins, opnað 15. september 1985.
...