Franska þingið samþykkti loks í gær fjárlög fyrir yfirstandandi ár en deilur um fjárlögin urðu fyrri ríkisstjórn að falli í lok síðasta árs. Öldungadeild þingsins samþykkti fjárlögin með 219 atkvæðum gegn 107. Áður hafði François Bayrou beitt stjórnarskrárákvæði til að knýja fjárlögin í gegn í neðri deild þingsins án atkvæðagreiðslu og stóð af sér vantrauststillögu í kjölfarið.
Ríkisstjórn Michels Barniers hrökklaðist frá völdum í Frakklandi í byrjun desember en franska þingið samþykkti vantraust á hann þegar hann beitti sama ákvæði til að knýja fram fjárlög. Emmanuel Macron forseti Frakklands tilnefndi þá Bayrou, sem er gamalreyndur stjórnmálamaður, í embætti forsætisráðherra.