Sigurður Sveinsson Hálfdanarson fæddist 28. júní 1935. Hann lést 14. janúar 2025. Útför hans fór fram 6. febrúar 2025.
Í hafsjó minninganna rís ein sterk í systkinahópnum okkar stóra á Ytra-Seljalandi. Þau yngstu okkar ýmist ófædd eða of ung til að muna en heyrðu söguna sem svo oft var sögð af þeim eldri og í nokkrum tilbrigðum. Upp hlaðið kom bifreið. Það var annað hvort amerískur Plymouth eða Opel, eftir því hver sagði frá. Út úr bílnum steig maður sem spurði eftir föður okkar, en það okkar sem taldi að hefði hitt hann fyrst var yfirleitt sögumaður sjálfur. Þarna kom hann Sigurður bróðir sisona allt í einu inn í líf okkar, hann stóri bróðir okkar, nýr bróðir en samt fullorðinn, með eiginkonu sér við hlið, hana Theu, og litla telpu sem skottaðist um með ljósa lokka.
Með tímanum jukust kynni okkar við þessa viðbót í fjölskylduna og þau yngstu í
...