Þorbjörg Dýrleif Árnadóttir fæddist 8. febrúar 1898 á Skútustöðum í Mývatnssveit. Foreldrar hennar voru hjónin Árni Jónsson, f. 1849, d. 1916, prestur og alþingismaður, og Auður Gísladóttir, f. 1869, d. 1962.

Þorbjörg lauk prófi frá Verslunarskólanum árið 1916, hóf nám við Bispebjerg-spítala í Kaupmannahöfn 1919 og lauk þaðan prófi í skurðhjúkrun 1923.

Þorbjörg stundaði síðan hjúkrunarstörf í Reykjavík en hélt til Seattle 1925 og stundaði þar nám og störf. Hún var skipuð yfirhjúkrunarkona Vífilsstaðaspítala 1929 en frá 1931 stundaði hún hjúkrun í Reykjavík og Ósló til 1937 að hún hélt aftur til Seattle. Vorið 1945 varð hún fyrsta íslenska konan til að ljúka meistaraprófi í faginu þegar hún útskrifaðist frá Washington-háskóla í Seattle, en sérfræðinám hennar þar var heilsuvernd.

...