Umskipti Hvað gerir maður þegar galleríið manns í New York fer á höfuðið? Nú, maður flytur aftur heim í herbergið sitt hjá pabba gamla í fásinninu í Mobile, Alabama. Tja, alltént ef við erum stödd í flunkunýjum gamanmyndaflokki á Amazon Prime, Clean Slate. Pabba, sem á og rekur bílaþvottastöð, bregður á hinn bóginn í brún þegar í ljós kemur að maður er ekki lengur karl, eins og þegar maður fór að heiman, heldur kona að nafni Desiree. Eitthvað hafði sum sé verið lítið um samskipti í millitíðinni. Hvernig ætli bæjarbúar taki þessum umskiptum?