Jóhann Magnússon fæddist í Ráðagerði, Vetleifsholtshverfi í Rangárvallasýslu, 18. desember 1933. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. janúar 2025. Foreldrar Jóhanns voru Anna Pétursdóttir frá Stóra-Rimakoti Þykkvabæ, f.1892, d.1975, og Magnús Stefánsson, frá Litla -Rimakoti (Borg) Þykkvabæ, f. 1892, d.1974. Jóhann var næstyngstur 8 systkina, Þorbjargar, Unu, Sigríðar Önnu, Maríu, Þóru, Pálínu og Helgu. Af þessum sjö systrum hans er Helga, sú yngsta, ein á lífi.

Jóhann var 12 ára þegar fjölskyldan fluttist að Sólvöllum á Seltjarnarnesi. Þar lauk hann sinni barnaskólagöngu við Valhúsaskóla og vann sem vinnumaður í Nesi nokkur sumur. Ýmis önnur störf innti hann af hendi fram að tvítugu þegar hann árið 1954 kvæntist Elísu Magnúsdóttur, f. í Reykjavík 23. desember 1935. Foreldrar hennar voru Guðfinna Guðleifsdóttir frá Ísafirði, f.1917, d. 2002 og Magnús Guðnason frá Haga í Grímsnesi, f. 1913, d. 2005.

Jóhann starfaði frá 19 ára aldri á Smurstöð við Sætún í Reykjavík og síðar við Smurstöðina Essó við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði en þá stöð rak hann frá árinu 1974 og frá árinu 1990 með syni sínum allt til starfsloka.

Börn Jóhanns og Elísu eru fjögur; 1) Dagný f. 1954, sonur Jóhann Gunnlaugsson, f. 1980, faðir Gunnlaugur Símonarson (látinn), maki Jóhanns er Inga Rut Jónsdóttir, f. 1980 og börn þeirra eru Dagný, f. 2011 og Gunnar Vilji, f. 2012; 2) Anna Jóhannsdóttir, f. 1955, maki Finnbogi Gunnarsson, f. 1958, dætur Önnu eru a) Elva Gísladóttir, f. 1973, faðir Gísli Jafetsson, maki Elvu er Gunnar Petersen, f. 1974 og börn þeirra eru Anna Alexandra, f. 2002, Steinar, f. 2005 og Brynjar f. 2010; b) Gunnhildur Jakobsdóttir, f. 1980, faðir Jakob S. Magnússon, maki Gunnhildar er Garðar Þorsteinsson, f. 1979 og dætur þeirra eru Steinunn Birna, f. 2009 og Hildur Lóa, f. 2011; 3) Magnús, f. 1960, kvæntist Dagnýju Sigurbjörgu Jónsdóttur, f. 1968, þau slitu samvistum, börn þeirra eru a) Jón Gauti, f. 1991, maki Sigurborg Hanna Sigurjónsdóttir, f.1994, dóttir hennar Maya Jóna, f. 2020 og sonur þeirra óskírður, f. 2025; b) Bríet, f. 1992, maki Jónbjarni Einarsson, f. 1992, þeirra dóttir er Alba Malen, f. 2024; c) Elísa Halla, f. 2003 maki Einar Tómas Grétarsson, f. 2001, sonur þeirra Baltasar Tumi, f.2024; 4) Elísa Björk, f. 1973 maki Davíð Örn Theodórsson, f. 1972, börn þeirra a) Bryndís Arna, f. 2002 maki Bjarni Már Gunnarsson, f. 2002 og börn þeirra eru Hugrún Nadía, f. 2023 og Hreiðar Snær, f. 2024, b) Aldís Emma, f. 2006 og c) Eyþór Atli, f. 2010.

Jóhann og Elísa bjuggu lengst af í Stóragerði 1, Reykjavík og síðastliðin þrjú ár að Sléttuvegi 13, Reykjavík.

Jarðarförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Jarðsunginn var í dag tengdafaðir minn Jóhann Magnússon. Jói eins og hann var kallaður, var kominn á tíræðis aldur, heilsuveill undir það síðasta en hafði átt góða ævi, virkur alla tíð og heilsuhraustur en alveg tilbúinn að fara, sáttur við guð og menn. Það breytir ekki því að hans verður sárt saknað og hans minnst af samferðamönnum með mikilli hlýju.
Jói kom á mölina á þrettánda ári, gekk í Valhúsaskóla og lengri var skólagangan ekki. Það þurfti að leggja til heimilisins og hann lét ekki sitt eftir liggja. Þótt skólagangan væri ekki giska löng þá kom það ekki að sök því hann hafði fengið í vöggugjöf gott verksvit og verksvitinu fylgdi handlægni svo það var fátt sem vafðist fyrir honum þegar verkin voru annars vegar.
Svona eftir á að hyggja er ekki víst að hann hefði endilega þrifist vel í skóla, hann var meira fyrir að láta verkin tala. Og verkin hans töluðu, vitnuðu og vitna um einstakt hugvit og hagkvæmni. Hann lét sig ekki muna um að byggja sumarbústað og það fleiri en einn, þeir standa enn og leka ekki. Hann elskaði að smíða eins og sagt er í dag og leið aldrei betur en eftir langan og strangan vinnudag í bústaðnum við Apavatn.
En hann kunni fleira, hann kunni að fara með bíla, ekki kannski rafmagnsbíla en alla venjulega bíla. Kaus þá frekar ameríska og í bílamálum var hann líka á heimavelli, starfaði á og rak seinna smurstöð í Hafnarfirði við góðan orðstír í tugi ára. Jói var með eindæmum geðgóður og glaðsinna og kom fram við alla menn jafnt, hafði gaman af léttu gríni og stríðni án þess að vera nokkurn tíma meiðandi. Viðskiptavinir héldu tryggð við stöðina enda gátu þeir verið vissir um að verkinu yrði skilað af vandvirkni og fagmennsku og á sanngjörnu verði því ef eitthvað var, þá var Jói alveg laus við græðgi. Hann sýndi aldrei mikinn áhuga á peningum yfir höfuð og hann þurfti þess ekki, því þau mál voru í höndum betri helmingsins og fór vel á því. Mér er til efs að hann hafi nokkru sinni tekið krónu fyrir fyrir öll þau aukaverk sem hann tók að sér, beðinn eða óbeðinn, fyrir vini og vandamenn. Slík aukaverk voru tíð því ef það var eitthvað sem einkenndi Jóa var það liðlegheit og ósérhlífni.
Þótt Jói hafi ekki gengið menntaveginn þá las hann mikið, var ekki gefinn fyrir skáldskap en allur þjóðlegur fróðleikur var á hans áhugasviði. Hann var líka námsfús. Hann reif hluti í sundur til að sjá hvernig þeir virkuðu og setti síðan saman aftur enda var það fátt sem hann ekki réð við að laga, með kítti ef ekki vildi betur.
Aldrei sást Jói með vettlinga eða húfu þótt veðrið kallaði á það og ekki notaði hann hjálm eða aðrar hlífar, ekki hægt að segja að hann hafi sett öryggið á oddinn. Hann var til dæmis kominn vel á níræðis aldur þegar hann fór síðast upp í stiga og upp á þak á þrílyftu húsi sínu að huga að viðhaldi. Sama hvað var skammast í honum þá fór hann sínu fram, enda þrjóskari en sauðkindin. Jói var afskaplega hjartahlýr maður og mikill dýravinur. Kötturinn hans flutti með honum á mölina á sínum tíma og seinna fann hann kettling undir sumarbústaðnum sem hafði verið borinn út og var nær dauða en lífi. Þessi kettlingur, Ófeigur, fékk heimili í Stóragerði og þýddist engan nema Jóa og Lísu.
Jói var umhyggjusamur og til marks um það þá heimsótti hann reglulega mága sína og vini á sjúkrastofnanir þar til yfir lauk. Eins var það eftirtektarvert að ef einhverjar framkvæmdir voru í gangi hjá hans nánustu þá var hugur hans þar.
Jói kunni best við sig í sumarbústaðnum, að græja og gera, gróðursetja og byggja. Segja sumir að honum liði aldrei betur en eftir að hafa keyrt sig út eftir langan vinnudag. Þar var hann allt í senn kerra, plógur, hestur.
Jói var vel kvæntur henni Lísu og samtaka hafa þau gengið í gegnum súrt og sætt í meira en sjötíu ár. Megi allar góðar vættir veita Lísu og fjölskyldu styrk í sorg þeirra, það er skarð fyrir skildi.

Minningin um góðan dreng lifir.


Finnbogi Gunnarsson.