![Kænan Helga Ösp Jóhannsdóttir, Oddsteinn Gíslason og Valdimar Víðisson bæjarstjóri takast í hendur.](/myndir/gagnasafn/2025/02/11/ced8d6fb-7a28-404e-96a4-943fd344b114.jpg)
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti nýverið að kaupa húsnæði Kænunnar að Óseyrarbraut 2. Fyrirtækið Matbær ehf., sem á og rekur Kænuna, mun hafa full umráð yfir eigninni fram að afhendingu sem ráðgerð er 1. desember árið 2028.
Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og eigendur Matbæjar undirrituðu kaupsamning í liðinni viku, hjónin Oddsteinn Gíslason og Helga Ösp Jóhannsdóttir. Þau hafa rekið Kænuna frá árinu 2016 og sérhæft sig í þjóðlegum heimilismat. Haft er eftir þeim í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ að viðskiptavinir hafi verið fjölbreyttur hópur, allt frá iðnaðarmönnum til erlendra ferðamanna.
Kaupverðið er 265 milljónir kr. en húsnæðið stendur á 2.300 fermetra leigulóð. Bærinn ráðgerir mikla uppbyggingu á Flensborgarhöfn, þar sem m.a. mun rísa ný bygging Tækniskólans í Hafnarfirði.