![Þórunn Árnadóttir](/myndir/gagnasafn/2025/02/12/ebc61ef2-e680-416b-9489-15a08ab32a70.jpg)
Hádegishittingur með hönnuði er heiti á nýjum dagskrárlið í Hönnunarsafni Íslands sem fram fer í dag, miðvikudaginn 12. febrúar, kl. 12.15 sem og framvegis annan miðvikudag í mánuði. Að sögn Sigríðar Sigurjónsdóttur safnstjóra er hugmyndin sú að gefa gestum kost á að hitta ýmiss konar hönnuði og heyra um störf þeirra í frjálslegu spjalli yfir kaffi og kleinum. Segir í tilkynningu að hönnuðurinn sem ríði á vaðið sé Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður sem „er knúin áfram af forvitni, tilraunagleði og áhuga á mismunandi menningarheimum, efnum og framleiðsluferlum. Kerti er ekki bara kerti í augum Þórunnar, samanber PyroPet-kertin sem hún hannaði, og klukka er ekki bara klukka, samanber Sasa-klukkuna sem mælir tíma í perlum.“ Þórunn er nú í vinnustofudvöl í safninu og gestir geta fylgst með henni hanna nýja tegund ilmgjafa.