![Blóðgjöf getur bjargað lífi.](/myndir/gagnasafn/2025/02/13/f9b30832-ef7b-4354-8bfe-449562e892cd.jpg)
Blóðgjöf getur bjargað lífi.
Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, og Blóðbankinn standa fyrir blóðgjafardegi í dag, fimmtudag, frá kl. 10-19 í Blóðbankanum við Snorrabraut 60. Þar verður almenningi boðið að kynna sér blóðgjöf og skrá sig sem blóðgjafa. Fulltrúar Neistans verða á staðnum til að fræða um áhrif blóðgjafa á börn með hjartagalla. Boðið verður upp á kaffi og kökur fyrir gesti.
Markmiðið er að vekja athygli á því að árlega fæðast hér á landi að meðaltali 70 börn með hjartagalla. Mörg þeirra þurfa að gangast undir hjartaaðgerðir strax á fyrstu æviárunum og treysta á blóðgjafir til að komast í gegnum þær, segir í tilkynningu frá Neistanum.