Handknattleiksmaðurinn Kári Kristján Kristjánsson var ekki með ÍBV í sigri liðsins á FH í tvíframlengdum leik og vítakeppni í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á laugardag þar sem hann var rúmliggjandi á sjúkrahúsi í Reykjavík með hjartabólgur. RÚV greinir frá því að Kári hafi gengist undir hjartaþræðingu í öryggisskyni og verði frá keppni næstu þrjá mánuði, sem þýðir að tímabili hans er lokið.

Framherjinn Taiwo Awoniyi nefbrotnaði í sigri Nottingham Forest á C-deildarliðinu Exeter í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrrakvöld. Forest fór áfram eftir vítakeppni en undir lok venjulegs leiktíma lá Awoniyi eftir í kjölfar þess að hafa lent í árekstri við Joe Whitworth, markvörð Exeter. Nuno Espírito Santo, stjóri Forest, sagði eftir leik að hann hefði nefbrotnað í árekstrinum.

...