Björgólfur Guðmundsson athafnamaður fæddist í Reykjavík 2. janúar 1941. Hann lést 2. febrúar 2025.

Hann var sonur hjónanna Kristínar Davíðsdóttur, f. 29.3. 1916, d. 7.4. 1972, og Guðmundar Péturs Ólafssonar, 3.10. 1911, d. 23.7. 1979. Alsystkini hans voru Davíð Pétur, f. 20.12. 1938, d. 20.9. 2009, Sigríður, f. 28.9. 1945, Björg, f. 1.10. 1949 og Ólafur Kristófer, f. 21.4. 1960, d. 13.2. 2014.

Björgólfur gekk 14. júní 1963 að eiga Þóru Hallgrímsson, f. 28.1. 1930, d. 27.8. 2020. Hún var dóttir hjónanna Margrétar Þorbjargar Thors, f. 22.4. 1902, d. 2.9. 1996, og Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, f. 17.10. 1905, 16.9. 1984. Börn þeirra eru: 1) Örn Friðrik Clausen, 13.7. 1951, d. 6.1. 2020, giftur Helgu Theodórsdóttur, f. 21.12. 1954, og eru þeirra börn a) Þóra Björg Clausen, f. 27.9. 1978, og b) Ragnar Örn Clausen, f. 16.5. 1984; 2) Hallgrímur Björgólfsson, f. 21.5. 1954, giftist Sigrúnu Ingibjörgu Jónsdóttur, f. 14.1. 1953, d. 8.5. 2020, og er sonur þeirra a) Hallgrímur Friðrik Hallgrímsson, f. 27.8. 1980. Þau skildu. Síðari eiginkona hans var Sue Barlow. Þeirra synir eru b) Christopher Björgolfsson, f. 16.10. 1982, og c) Thomas Ólaf Björgolfsson, f. 18.6. 1985; 3) Margrét Björgólfsdóttir, f. 28.10. 1955, d. 27.8. 1989; 4) E. Bentína Björgólfsdóttir, f. 22.7. 1957, maki Kenichi Takefusa, f. 26.6. 1951. Börn þeirra a) Björgólfur Hideaki Takefusa, f. 11.5. 1980, og b) Margrét Elisabet Yuka Takefusa, f. 12.8. 1983. Þau skildu. Síðari maki Óli Örn Andreassen, f. 17.9. 1951. Dóttir þeirra er c) Hugrún Margrét Óladóttir, f. 17.1. 1989. Þau skildu. 5) Björgólfur Thor Björgólfsson, f. 19.3. 1967, maki Kristín Ólafsdóttir, f. 6.7. 1972. Þeirra börn eru a) Daniel Darri Björgolfsson, f. 20.3. 2005, b) Lorenz Logi Björgolfsson, f. 6.3. 2009, og c) Bentina Björgolfsson, 26.9. 2011. Barnabarnabörn Þóru og Björgólfs eru ellefu.

Björgólfur ólst upp á Framnesvegi í Vesturbæ Reykjavíkur og stundaði íþróttir með KR, gekk í Melaskólann, Gagnfræðaskólann við Hringbraut og síðan Verslunarskóla Íslands þar sem hann útskrifaðist sem stúdent 1962. Síðar það ár stofnaði hann iðnfyrirtækið Dósagerðina hf. og var hann forstjóri þess til 1977 þegar hann var ráðinn forstjóri Hafskips hf. Gegndi hann því starfi ásamt stjórnarformennsku í ýmsum dótturfyrirtækjum félagsins erlendis til ársins 1986. Á árunum fram til 1991 starfaði hann einkum í Danmörku sem ráðgjafi í skiparekstri og sem forstjóri í félagi sem hann stofnsetti ásamt Kenichi tengdasyni sínum, Icestar Photo. Hann var ráðinn forstjóri Gosan í Reykjavík 1991 og síðar Viking Brewery en félögin voru í eigu Pharmaco. 1995 gerðist hann stjórnarmaður í Bravo Ltd. í Pétursborg í Rússlandi sem hann stofnaði m.a. í félagi við son sinn Björgólf Thor. Ásamt rekstri eigin fjárfestingarfélags Hansa hf. sinnti Björgólfur upp frá þeim tíma nær einvörðungu stjórnarsetu í fjölmörgum fyrirtækjum, þar á meðal Bravo International, Pharmaco og Primex á Íslandi og Balkanpharma Ltd. í Búlgaríu. Hann stofnaði árið 2002 fyrirtækið Ólafsfell hf. sem sinnti útgáfumálum og varð síðar leiðandi fjárfestir í útgáfufélögunum Eddu og Árvakri.

Árið 2003 tók Björgólfur að sér formennsku í bankaráði Landsbanka Íslands og sinnti því til 2008. Hann var formaður stjórnar Portusar hf. sem hannaði og hóf byggingu tónlistarhússins Hörpu. Hann var aðaleigandi og formaður knattspyrnufélagsins West Ham í Lundúnum í Bretlandi 2006 til 2009 og var hann heiðursforseti félagsins til dauðadags.

Björgólfur gegndi á yngri árum margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var um tíma formaður Varðar. Hann var einn stofnenda SÁÁ og formaður um árabil. Hann var einnig formaður knattspyrnudeildar KR 1998-2002. Þá var hann aðalræðismaður Búlgaríu á Íslandi um árabil. Björgólfur studdi víða við velferðar-, mennta- og menningarmál, m.a. með stofnun og rekstri minningarsjóðs um Margréti dóttur sína. Honum var árið 2005 veitt fálkaorðan fyrir framlag sitt til viðskipta og menningarmála.
Útför Björgólfs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 13. febrúar 2025, og hefst hún klukkan 15.

Afi minn var bestur. Ég gæti vel látið kyrrt liggja hér, en þar sem hann gantaðist endalaust um það að ég yrði ávallt að eiga síðasta orðið mun ég halda áfram.

Afi minn var besti afi sem ég hefði nokkurn tímann getað óskað mér. Hann er sá sem ég hlakkaði til að spjalla við bæði þegar vel gekk og þegar eitthvað bjátaði á því ég vissi hiklaust að hann myndi hlusta á mig og standa með mér. Við gátum rætt allt í heiminum, þó skoðanir okkar voru oft á tíðum verulega ólíkar, því á milli okkar ríkti einlæg, gagnkvæm virðing. Í breiðum faðmi afa var alltaf pláss, jafnvel þegar afastelpa var orðin tveggja barna móðir í úthverfunum. Það var einhvern veginn sama hvað- hann bauð upp á öryggi og vissu um að allt yrði í lagi.

Afi elskaði fjölskyldu sína og kættist vel yfir komu nýrra kríla í hana. Einu sinni sótti hann mig, held ég bara beint eftir skólann, bauð mér út að borða á Hótel Sögu og sagði öllum stoltur að ég væri dótturdóttir hans. Þegar ég handleggsbraut mig við fimleikatilraunir sem fólu í sér tré, príl og þvottasnúru sótti hann mig á til vinkonu minnar, fór með mig heim og var síðan í mesta vanda að reikna út hvaða verkjalyf hann mætti gefa mér, bindindismaðurinn sjálfur! Mig minnir að hann hafi verið á leið í flug eða beint kominn úr flugi svo Helga, Örn og Þóra Björg fóru með mig á slysó. Svona er okkar fjölskylda þar sem enginn er eyland, og hann patríarkinn í henni. Hann stóð sig gífurlega vel sem slíkur.

Afi hafði mikinn og góðan húmor og naut þess að heyra um prakkarastrik, svo framarlega sem þau bitnuðu ekki á öðrum. Þegar ég bjó í Wales hringdi hann í mig og ég heyrði glottið á honum í gegn um símann. Hann hélt á bréfi merktu mínu nafni, frá Sýslumanni Vesturlands, stílað á heimilisfang þeirra ömmu. Ég hafði fengið bíl þeirra lánaðan nokkrum mánuðum fyrr og farið ögn yfir hraðatakmörkin en auðvitað, þar sem allir þekktu afa, gat sýslumaður rekið að þetta var barnabarn þeirra Þóru Hallgrímsson og sent svona líka fína sekt af stað! Held að hann hafi notið kjánaskapar míns vel og lengi.
Hann var sannarlega maður fólksins, gutti úr Vesturbænum, og hafði einskæra ánægju af því að spjalla við fólk, rekja ættir, hjálpa öðrum og kynnast alls konar manngerðum. Hann var mikill menningarmaður og fannst frábært að fylgjast með fólki feta sinn veg og fylgja sinni ástríðu og studdi marga við það. Í rómaðri ferð okkar til Jamaíka dansaði hann öllum stundum, aldrei fór takturinn úr honum. Hann átti það til að taka stöku snúning í hversdagslegum aðstæðum og Siggi minn var agndofa þegar hann dansaði inn í herbergið á áttræðisafmæli sínu. Hann kunni svo sannarlega að sjarmera og slá í gegn hvar sem hann kom, með leik- og lífsgleði að vopni.

Hann var drifkraftur byggingar Hörpu og ég man svo vel eftir þeim stundum sem hann sýndi mér spenntur teikningarnar, reyndi að mála mynd í huga mér fullur tilhlökkunar. Þá fattaði ég ekki hversu magnað framtak hann var að leggjast út í, og vildi ég óska að ég hefði kunnað að meta það betur þá. Sonur minn, Jökull, fékk þó að segja bekkjarfélögum sínum stoltur frá því í heimsókn þangað, en milli þeirra tveggja var fallegt samband.

Stormurinn sem geisaði í síðustu viku hefði verið unun fyrir hann, hann elskaði að hjúfra sig undir sæng með dagblöðin og Biblíuna og hlusta á vindinn gnauða fyrir utan. Það þurfti nefnilega ekki margt til að gleðja afa, og alls ekki veraldlega hluti þó hann hafi verið einstaklega mikill fagurkeri. Hann sá gleði og kærleik í því sem skipti máli, enda búinn að reyna flest allt sem þetta líf getur boðið manni upp á. Mótlæti er til að sigrast á, við þekkjum bæði gleði og tár.

Afi var viti fjölskyldunnar og amma vitavörðurinn. Saman stóðu þau af sér lífsins ólgusjó og leiðbeindu týndum skipum í örugga höfn, en þau nutu þess einnig að sjá litlu æðarungana fylgja foreldrum sínum, furðufugla flakka um og unga svani stinga nefjum saman. Stæðileg og litrík voru þau fullkomið teymi. En þó kom að því að vitavörðurinn kvaddi og með tímanum fór ljósið að flökta, sprungur komu í rúðurnar og jarðvegurinn hóf að gefa sig. Vitinn reyndi þó að standa sína vakt eftir fremsta megni og erum við full aðdáunar af þrótti hans og þori sem varði allt þar til ljósið að lokum slokknaði.

Ég vil nýta tækifærið hér og þakka bróður mínum, Bjögga, fyrir að gefa allt sem hann átti í umönnun afa undanfarin ár, að öðrum fjölskyldumeðlimum ólöstuðum.


Afi minn, nú er stórt gat í mínu hjarta þar sem eftirvæntingin við að spjalla við þig var áður. Þú varst minn kæri vinur frá mínum fyrsta degi. Nú fer ég að hlakka til stóru veislunnar sem þú lofaðir mér þegar mínu lífi lýkur hér, og geri ég hér með kröfu um tónleika þar sem þið bræður, Davíð og Óli, syngið Sumarliða. Í millitíðinni mun ég að borða helling af hamborgurum með Jökul Tinna fyrir þig og koma rauða ljóninu, Karí okkar, í hvaða ótrúlegu vegferð sem hún svo sem kýs sér. Þangað til: Njóttu þess að dansa við ástina þína, ömmu, og skellihlæja með Möggu.

Bless, kæri afi, og takk fyrir allt. Þín afastelpa,

Hugrún Margrét.