![Eldur Ólafsson](/myndir/gagnasafn/2025/02/14/fac2822b-0301-4a64-b885-c7b824d4696e.jpg)
Eldur Ólafsson
Bandaríkin standa frammi fyrir sinni stærstu öryggisógn frá Rússlandi og Kína. Til að tryggja bæði eigin hagsmuni og hagsmuni hins frjálsa heims, þurfa Bandaríkin og NATO að efla varnarinnviði á Íslandi og Grænlandi. Eins og staðan er í dag er fjárfesting í varnarinnviðum á þessum svæðum ófullnægjandi, sem og eftirlit.
Kína hefur tangarhald á á framleiðslu raftækja á heimsvísu. Baráttan um hráefnin – fágæta málma – snýr einna helst að því að breyta þeirri stöðu. Vesturlönd, þar á meðal Danmörk, hafa ekki sinnt fjárfestingum í geirum sem skipta máli við framleiðslu rafeindabúnaðar af nægjanlegum krafti. Þó hefur Danmörk hagnast á sölu lyfja frá Novo Nordisk í Bandaríkjunum og þannig haldið ríkissjóði sínum í plús. Á sama tíma hefur ekki verið ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum Grænlands sem skipta lykilmáli fyrir vestræna hagsmuni.
Stytting siglingaleiða um norðurslóðir mun reynast mikilvæg í efnahagslegri samkeppni komandi ára. Eins og staðan er í dag hafa aðeins Kína og Rússland getu til að nýta þessa leiðir með sterkum ísbrjótum og sinni strategísku legu. Bandaríkin, Kanada og Grænland hafa möguleika á að opna siglingaleið vestanmegin, en skortur á fjárfestingum, meðal annars af hálfu Dana, hefur tafið framgang málsins.
Grænland stefnir nú í átt að sjálfstæði og getur litið til reynslu Íslendinga. Ísland fékk sjálfstæði sitt að miklu leyti vegna hernaðarlegs mikilvægis framan af fimmta áratug síðustu aldar. Í framhaldi af afskiptum Churchill af Íslandi fjárfestu Bandaríkin í innviðum og herstöðvum hér á landi, sem reyndist ein stærsta uppspretta gjaldeyristekna Íslendinga á 20. öld. Með EES-samningnum tókst Íslendingum að styrkja efnahag sinn enn frekar í samvinnu við Bandaríkin, Evrópu og Norðurlönd. Sama tækifæri bíður Grænlendinga.
Fríverslunarsamningur Íslands og Grænlands – stærsta hagsmunamál Íslands á þessari öld
Nú stendur Ísland frammi fyrir einu stærsta hagsmunamáli sínu: Að tryggja fríverslunarsamning við Grænland. Í dag njóta íslensk fyrirtæki umtalsverðra viðskiptatækifæra í Grænlandi, meira en grænlensk fyrirtæki nýta sér á Íslandi.
Hvernig tryggjum við samninga við Grænlendinga?
Grænlendingar er fámenn þjóð, aðeins um 50.000 manns – sambærilegt við íbúa á Eyjafjarðar og nærsveita. Til að byggja upp sterkari tengsl og samvinnu við Grænlendinga er hægt að grípa til eftirfarandi aðgerða:
Opna íslenskan markað fyrir grænlensk matvæli, til dæmis hreindýrakjöt
Veita grænlenskum sjúklingum aðgang að íslenskri heilbrigðisþjónustu, fjármagna sjúkraflug sem og að hjálpa til við að manna stöður á Grænlandi
Styðja við uppbyggingu skóla, hitaveitna og annarra samfélagsinnviða á Grænlandi eins og t.d. Ístak hefur þegar verið að gera sem og Amaroq Minerals
Veita Grænlendingum sömu réttindi og Íslendingar hafa á Íslandi og nýta íslenskar stofnanir í þágu Grænlendinga þeim að kostnaðarlausu
Styðja við íþróttir, listir og menntun grænlenskra ungmenna í Grænlandi að íslenskri fyrirmynd
Auka samstarf um flutninga, fjárfestingar og þjónustu til Grænlands í gegnum Ísland
Þetta gerum við án þess að krefjast nokkurs til baka – því ávinningurinn er þegar til staðar. Íslensk fyrirtæki eru þegar leiðandi í sjávarútvegi, flutningum og innviðauppbyggingu á Grænlandi. Til að setja þetta í samhengi eru um 60-80% af fjárfestingu Amaroq tengd fólki og flutningum. Með því að hjálpa til við þessa tvo þætti og leiða þá í gegnum Ísland er til mikils að vinna út af landfræðilegri stöðu Íslands.
Með auknu samstarfi yrði Grænland efnahagslega sjálfstæðara og Ísland fengi enn sterkari stöðu í alþjóðaviðskiptum. Með því að styðja Grænland í þessari vegferð tryggjum við einnig eigin framtíð. Nú þegar liggja fyrir mjög góðir samningar á milli ríkjanna byggðir á norrænu módeli. Með því að ramma inn fríverslunarsamning við Grænland styrkjum við samningsstöðu okkar gagnvart bæði Bandaríkjunum og Evrópu fyrir sambærilega samninga. Slíkur samningur myndi leggja grunn að sterkari utanríkisstefnu Íslands sem mun gagnast komandi kynslóðum. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna hefur komið Grænlandi efst á dagskrá á undanförnum vikum og Íslendingar eiga að grípa það tækifæri sem hefur myndast í kjölfarið.
Aðgerðir og framtíðarsýn
Íslensk stjórnvöld, bæði Alþingi og ríkisstjórn, ættu að taka þetta mál alvarlega og vinna markvisst að fríverslunarsamningi við Grænland. Þegar samningurinn verður undirritaður mun það efla stöðu Íslands í alþjóðaviðskiptum og skapa ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og almenning.
Höfundur er stofnandi Amaroq Minerals, stærsta einkafjárfestis á Grænlandi, með yfir 10 ára reynslu í viðskiptum við grænlenska ríkið. Félagið er einn stærsti réttindahafi á hrávöruleyfum í landinu.