![Á útleið Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stillti sér upp fyrir myndatöku eftir að ljóst varð að hann myndi ekki halda herbergi sínu.](/myndir/gagnasafn/2025/02/14/e39a37d4-9e0a-4965-b08c-cd5523b871fa.jpg)
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur misst þingflokksherbergi sitt, en í því hefur flokkurinn verið frá árinu 1941. Gerist þetta í kjölfar þess að forseti Alþingis knúði fram breytingu á núgildandi reglum er varða úthlutun herbergja og mun þingflokkur Samfylkingar nú fá rýmið sögufræga.
„Það hefur því miður sýnt sig að Samfylkingunni er í hinum ýmsu málum ekki mjög umhugað um reglur og hefðir á okkar háa Alþingi. Reglur um þingflokksherbergi voru skýrar enda úrskurðaði skrifstofustjóri Alþingis að samkvæmt þeim ætti Sjálfstæðisflokkurinn að halda herbergi[nu],“ er haft eftir formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Hildi Sverrisdóttur.
Þá bendir Sjálfstæðisflokkurinn á að áður hafi verið reynt að koma í veg fyrir óþarfa rask og deilur innan þingsins. Nýjar reglur gera það ekki.