Kostir tækniframfara verða seint ofmetnir og fullyrða má að flestir núlifandi menn eigi tækniframförum líf sitt að þakka. Án gríðarlegra tækniframfara í gegnum mannkynssöguna, ekki síst á síðastliðinni öld eða svo, væri vart hægt að fæða og klæða alla þá milljarða manna sem nú eru uppi, hvað þá að tryggja vaxandi hluta þeirra gott viðurværi og jafnvel drjúgum hluta almennings velmegun sem enginn gat leyft sér að láta sig dreyma um áður fyrr.
Tækniframfarirnar stöðvast ekki, sem betur fer, og í Morgunblaðinu í gær var meðal annars fjallað um ábata sem ná mætti fram með frekari innleiðingu tæknilausna á heilbrigðissviðinu. Í þeim efnum er margt undir, meðal annars sú tækni sem hvað mesta athygli fær í dag, það er að segja gervigreindin. Hún er talin geta komið að góðum notum þar eins og víða annars staðar, flýtt fyrir, einfaldað verkefni og sparað starfsfólk, sem getur þá einbeitt sér að öðru,
...