![Forvarsla Konan sést hægra megin við manninn á svart/hvítu myndinni.](/myndir/gagnasafn/2025/02/15/47e1f46b-38e8-4252-92c7-25a34840267a.jpg)
Vel geymt leyndarmál var afhjúpað á dögunum af forvörðum Courtauld Institute of Art í London. ARTnews greinir frá og segir að dularfull kona hafi fundist á einu af þekktari verkum Pablos Picasso, „Portrait de Mateu Fernández de Soto“, sem var málað á því tímabili á ferli hans sem hefur einna mest verið rannsakað, hinu svokallaða bláa tímabili. Kom dularfulla konan í ljós þegar röntgengreining var gerð á portrettinu af Mateu Fernández de Soto, sem var spænskur myndhöggvari og vinur Picassos. Er konan með hárið greitt aftur í snúð, í hárstíl sem forverðirnir segja margar flottar Parísardömur á þessum tíma hafa notað. Ekki sé þó vitað hver konan er.
„Hún kann að hafa verið fyrirsæta, vinkona eða jafnvel ástkona sem situr fyrir á einni af litríkum impressjónískum myndum Picassos af næturlífinu í París, eða jafnvel melankólísk kona sem situr á bar,“ segir í yfirlýsingu frá forvörðum safnsins.