— Morgunblaðið/Anton Brink

Glænýtt knatthús Hauka var vígt í gær á sjálfan Valentínusardaginn, en þá afhenti verktaki hússins, ÍAV, Hafnarfjarðarbæ mannvirkið formlega. Þá undirrituðu fulltrúar bæjarins og Hauka rekstrarsamning og Arnór Bjarki Blomsterberg prestur vígði húsið, sem er rúmir 11.000 fermetrar að stærð.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að þetta séu tímamót sem Hafnfirðingar fagni og að húsið muni hafa gífurlega mikla þýðingu fyrir íþróttalíf í bænum og Hafnfirðinga alla.

Þá segir Magnús Gunnarsson formaður Hauka að húsið nýja feli í sér gjörbyltingu fyrir knattspyrnudeildina, sem og fyrir allt félagið. „Það er himinn og haf að fá þessa aðstöðu frá því sem nú er. Þetta er glæsileg bygging.“