
Stefán Íslandi (1907-1994) sá ég fyrst 1957. Hann átti fimmtugsafmæli þá 6. október og kom heim til að syngja í Toscu. Hann hélt síðan tónleika í Gamla bíói og Karlakór Reykjavíkur söng honum einnig heiðurstónleika þar sem margir söngvarar stigu á svið, sjálfur tók hann eitt lag með kórnum, Allsherjar drottin eða Panis angelicus. Ég bar virðingu fyrir honum, bæði sem söngvara og Skagfirðingi. Mér fannst mikið til hans koma þegar hann mætti á æfingu kórsins daginn fyrir tónleikana, kom beint úr hádegismat á Hótel Borg og vel til hafður að venju. Sigurður Þórðarson stjórnaði okkur á þessum tónleikum. Ég fór að sjá og heyra Toscu og sótti einnig tónleikana hans og fékk þannig, ef svo má segja, þverskurð af söngvaranum og varð mér ógleymanlegt. Það er gjörólíkt að syngja annars vegar hlutverk í óperu og hins vegar að standa einn á sviði með undirleikara.
...