Védís Sigríður Ingvarsdóttir, meistaranemi í viðskiptagreiningu við Tækniháskólann í Danmörku (DTU), mun hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon í Los Angeles, til styrktar rannsóknum og meðferðum við taugasjúkdómum

Á hlaupum Védís Sigríður er tiltölulega nýbyrjuð að hlaupa.
— Ljósmynd/Védís Sigríður Ingvarsdóttir
Magnea Marín Halldórsdóttir
magnea@mbl.is
Védís Sigríður Ingvarsdóttir, meistaranemi í viðskiptagreiningu við Tækniháskólann í Danmörku (DTU), mun hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon í Los Angeles, til styrktar rannsóknum og meðferðum við taugasjúkdómum.
Védís hleypur í minningu föður síns, sem lést úr krabbameini árið 2014. „Mig langar mjög mikið að hlaupa til minningar um pabba. Eins og núna þegar ég er að æfa mig að hlaupa þessi löngu hlaup sem eru rosalega erfið þá er rosalega mikil hvatning að hugsa til hans, og ég veit bara, þótt hann myndi örugglega vera í sjokki ef hann vissi að ég væri að hlaupa hálfmaraþon, að hann yrði mjög stoltur. Þannig að það er mikil hvatning að hlaupa til minningar um hann,“ segir Védís í samtali við Morgunblaðið.