
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Árið 2015 færði ég mig yfir á hreint rafmagn. Það var Nissan Leaf með 24 kWst rafhlöðu. Þá þegar vissi ég að rafmagnið myndi taka markaðinn yfir. Spurningin var aðeins hversu langan tíma það tæki. Og ég hafði grunsemdir um hvaða bílar yrðu fyrstu fórnarlömb hinna nýju tíma. Einn tróndi þar á toppnum, ekki spurning. G-Class úr smiðju Mercedez-Benz. Ekki vegna þess að ég óskaði þess, heldur aðeins vegna þess að það blasti við.
Ég hef reynsluekið slíkum bíl oftar en einu sinni síðan, og við ýmsar aðstæður. Og ég styrktist jafnt og þétt í trúnni um að þetta hlyti að vera. Af hverju helst? Jú, vegna þess að bíllinn er stór og mikill kassi. Hann tekur á sig vind eins og skip með seglin þanin. Það er beinlínis hluti af upplifuninni að ryðjast gegnum andrúmsloftið, alla leið á áfangastað.
...