
Drjúgur Robert Lewandowski skoraði sitt 20. mark í deildinni.
— AFP/Lluis Gene
Robert Lewandowski skoraði sigurmarkið þegar Barcelona komst aftur á toppinn í efstu deild spænska fótboltans með heimasigri á Rayo Vallecano, 1:0, í Barcelona í gærkvöldi. Börsungar eru með 51 stig, jafnmörg og Spánarmeistarar Real Madrid en töluvert betri markatölu. Atlético Madrid fylgir síðan í þriðja sæti með stigi minna. Mark Lewandowskis kom úr vítaspyrnu á 28. mínútu leiksins, hans 20. í spænsku deildinni á tímabilinu.