Nokkrir þingmenn Miðflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds. Tillagan er nú flutt í fimmta sinn og er fyrsti flutningsmaður Bergþór Ólason, en fjölgað hefur í hópi flutningsmanna, sem er út af fyrir sig góðs viti. Þó er nokkuð ljóst að tillagan fær ekki brautargengi frekar en fyrri daginn, sem er miður, því að þó að hún leysi ekki vandann við Ríkisútvarpið yrði hún án efa til bóta.
Í stuttu máli gengur tillagan út á að landsmenn, sem eru skyldugir til að greiða Ríkisútvarpinu sérstakan skatt, útvarpsgjald, geti valið um ráðstöfun hluta skattsins. Þannig geti þeir valið að verja allt að þriðjungi skattsins til annarra fjölmiðla. Tilgangurinn er, að því er segir í greinargerð, að landsmenn geti með framlagi sínu „tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það
...