
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Ákveðið hefur verið að slíta sjálfseignarstofnuninni Verði – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, sem Alþýðusamband Íslands og BSRB stofnuðu í maí árið 2020 og hefur tilkynning verið birt í Lögbirtingablaðinu.
Tilgangurinn með stofnun félagsins var að stunda rannsóknir á vinnumarkaði en ASÍ og BSRB komu skömmu síðar á fót öðru félagi, Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, sem hefur haft með höndum umræddar rannsóknir á vinnumarkaði á umliðnum árum. Engin starfsemi hefur hins vegar verið hjá Verði en í ljós kom að ekki hafði verið staðið rétt að skráningu félagsins á sínum tíma.
Slit Varðar munu ekki hafa nein áhrif á Vörðu sem mun starfa áfram eins og verið hefur, að sögn Finnbjörns A. Hermannssonar forseta ASÍ.
...