
30 ára Þórður Arnar fæddist í Reykjavík og ólst upp í Seljahverfi. Hann hóf þó skólagönguna í Sussex í Englandi og var þar fyrstu tvö skólaárin, meðan faðir hans var þar í háskólanámi. Þórður Arnar er því jafnvígur á íslensku og ensku og segist eiga góðar minningar frá Englandi. „Ég elskaði England og geri enn, og mig langaði eiginlega ekkert að flytja til Íslands. Það er aldrei að vita nema maður fari aftur út, en þá með fjölskylduna.“
Þórður Arnar prófaði alls konar íþróttir sem strákur. „Ég var í karate í Englandi en var síðan alltaf í fótbolta með ÍR alveg til 16 ára aldurs, og ég æfði handbolta, prófaði körfubolta, prófaði frjálsar íþróttir og ég var í samkvæmisdansi lengi vel. Svo æfði ég á píanó og geri enn. Svo byrjaði ég að dæma fótbolta mjög ungur, og er enn að vinna við það.“
...