
Magnús Tómasson sýndi skúlptúrverkið Herinn sigursæli á einkasýningu árið 1969 í Galleríi SÚM sem var til húsa við Vatnsstíg í Reykjavík. Á sýningunni voru þrívíð verk unnin úr iðnaðarefnum, málmum, járni og plasti. Magnús var einn af frumkvöðlum SÚM-hópsins sem var félagsskapur framsækinna listamanna á sjöunda áratugnum sem vildu víkka út listhugtakið og leiða íslenska myndlist inn á nýjar brautir. Herinn sigursæli er skipaður 12 risastórum húsflugum úr plasti sem mynda herfylkingu með fánabera í fararbroddi. Herinn skálmar fram vígreifur og að því er virðist reiðubúinn til átaka og jafnvel sigurviss. Súrrealísk stærð flugnanna vekur óhug þar sem þær standa á palli með stálplötu.
Verkið má túlka á ýmsa vegu en titillinn bendir til þess að það hafi pólitíska skírskotun til þess hernaðarbrölts sem tengdist kalda stríðinu og þá sérstaklega Víetnamstríðinu og vaxandi andúð á hvers kyns stríðsrekstri á sjöunda áratugnum. Grannir flugufætur og gegnsæir og fínlegir vængir mynda
...