
Áætlað er að hagræðing innan Stjórnarráðsins vegna niðurlagningar menningar- og viðskiptaráðuneytisins nemi rúmum 362 milljónum kr. Hagræðingin mun að miklu leyti koma fram á yfirstandandi ári. Þetta kemur fram í minnisblaði sem forsætisráðuneytið sendi til Alþingis.
„Að svo stöddu er miðað við um 350 [milljónir kr.] til að hafa ákveðið svigrúm vegna óvissu sem getur komið upp þegar ráðuneytið verður endanlega gert upp,“ segir í minnisblaðinu. Fram kemur að samtals eru 11,8 stöðugildi undir í hagræðingu hjá Stjórnarráðinu með því að að leggja ráðuneytið niður. Þar af verða 7,8 stöðugildi lögð niður hjá menningar- og viðskiptaráðuneyti af skrifstofu ráðuneytisstjóra, í stoðþjónustu ráðuneytisins, auk ráðherra og tveggja aðstoðarmanna. Einnig á sér stað hagræðing vegna fækkunar ráðherrabílstjóra hjá Umbru sem annast rekstur akstursþjónustu ráðuneyta og tölvukerfa.
...