
Góð veiði hefur verið að undanförnu hjá bátum sem gerðir eru út frá höfnum Snæfellsbæjar og landburður hefur verið af ljómandi fínum vertíðarfiski. Á föstudag í síðustu viku fiskuðu skipverjar á Bárði SH 81 rétt tæp 80 tonn og voru netin svo bunkuð að tvær landanir þurfti. Í hinni fyrri var komið með um 48 tonn í land og rúm 32 í þeirri síðari.
„Gangurinn í þessu er góður núna. Fyrir nokkrum dögum kom stór síldarganga hingað inn á Breiðafjörðinn og þorskurinn var á sömu slóð. Þessu fylgdi svo að síldinni, sem var alveg upp við fjöru, fylgdi mikið af hval; bæði háhyrningar og stórhveli sem eru sjaldséð hér,“ segir Pétur Pétursson, útgerðarmaður og skipstjóri á Bárði.
„Besti tími vertíðarinnar er í mars og apríl og við erum því bjartsýnir á framhaldið. Þorskurinn sem við höfum náð að undanförnu er yfirleitt í kringum 10 kíló og er eftirsóttur til vinnslu,“ segir Pétur enn fremur.
Á þriðja tug báta leggur upp nú í höfnum Snæfellsbæjar, það
...