
Einn vagnanna í ljósum logum.
Öll umferð strætisvagna og lesta var í gærkvöldi stöðvuð í Ísrael að skipun Miri Regev samgönguráðherra eftir að þrír strætisvagnar sprungu í borginni Bat Yam við Miðjarðarhafsströnd Ísraels, en borgin er skammt sunnan höfuðborgarinnar Tel Aviv.
Voru vagnarnir staðsettir annars vegar á stæði í borginni og hins vegar á götu þar og hóf lögregla leit að sökudólgum sem ekki hafði skilað árangri þegar Morgunblaðið fór í prentun. Engan sakaði í sprengingunum. Hóf sprengjusveit lögreglu leit á svæðinu í kjölfar sprenginganna til að fullvissa sig um að þar leyndust ekki fleiri sprengjur eða áhöld er valdið gætu sprengingum. Kvaðst lögregla rannsaka málið með tilliti til „hugsanlegrar árásar“.