
— AFP/Jack Guez
Isaac Herzog Ísraelsforseti lét þau orð falla í gær að hjörtu heillar þjóðar væru í molum eftir að palestínsku hryðjuverkasamtökin Hamas afhentu Rauða krossinum fjögur lík ísraelskra borgara sem haldið hafði verið í gíslingu samtakanna síðan liðsmenn þeirra réðust inn í Ísrael 7. október 2023 og rændu fjölda fólks sem síðan hefur að mestu verið haldið föngnu í neðanjarðargangakerfi Hamas á Gasasvæðinu.
Myndin sýnir mannfjölda koma saman í Tel Aviv í gær og halda einnar mínútu þögn í minningu landa sinna, rúmlega þrítugrar móður, Shiri Bibas, og tveggja barna hennar auk aðgerðasinnans og blaðamannsins Oded Lifshitz. Hefur Bibas-fjölskyldan orðið holdgervingur gíslatökuástandsins sem legið hefur sem mara á Ísraelsmönnum í rúmt ár.