
Fyrirhugað er að nýr meirihluti fimm flokka taki við völdum í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, hreinn vinstrimeirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks, Flokks fólksins og Vinstri-grænna.
Fátt liggur að sögn fyrir um verkaskiptingu eða stefnumið nýs meirihluta, sem starfa á þá 14 mánuði sem eftir lifa kjörtímabils. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að enn sé óráðið hver eigi að vera borgarstjóraefni nýs meirihluta.
Síðdegis í gær var boðað til aukafundar í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar er efst á dagskrá kosning forseta borgarstjórnar og borgarstjóra en á eftir sigla kosningar í ráð borgarinnar og önnur embætti. Að auki liggja þar fyrir tvær nýjar tillögur um stjórnkerfisbreytingar, sem kunna að gefa fyrirheit um fleira það sem koma skal í samstarfinu. andres@mbl.is » 2 og 8