Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði í gær eftir fresti til hádegis í dag til að taka afstöðu til innanhústillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í kjaradeilu kennara. Kennarasambandið samþykkti tillöguna en rétt áður en upprunalegi fresturinn rann út klukkan 22 í gærkvöldi óskuðu sveitarfélögin eftir lengri tíma. Formleg afstaða kennara til þeirrar beiðni liggur ekki fyrir. Verði tillagan samþykkt af öllum er hún ígildi kjarasamnings til fjögurra ára, sem felur þó í sér forsenduákvæði sem gerir kennurum kleift að segja upp samningnum á tímabilinu.
Fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldinn í gærkvöldi þar sem tillagan var rædd. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins, mætti ekki á fundinn að sögn.