
Vilhjálmur Bjarnason
Vinur minn, Ólafur, er algjörlega pólitískur, hann kýs Sjálfstæðisflokkinn eins og amma hans og afi hafa gert frá dögum Fjalla-Eyvindar og Jóns Hreggviðssonar.
Þar fyrir utan segir Ólafur mér frá glæsimönnum í ættinni, afar hans í ellefta lið eru þeir Guðbrandur Þorláksson byskup og Einar Sigurðsson, kenndur við (H)Eydali austur, en hann var sálmaskáld gott. Það eru aðeins eldri formenn Sjálfstæðisflokksins sem eru ættgöfugri en hann.
Ólafur er alltaf mjög slæmur fyrir kosningar, þá hringir hann kvölds og morgna og hellir úr skálum reiði sinnar yfir mig. Það sem ergir hann fyrst og fremst er hvernig fólk fer með atkvæðisrétt sinn. Hvernig hægt er að sóa atkvæðinu á vitleysinga og vanvirða þannig forfeður og formæður sínar.
...