
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði var stofnað 22. febrúar 1925 og verður því 100 ára á morgun. Tímamótanna verður þá minnst með sérstakri hátíðardagskrá í skátaheimilinu Hraunbyrgi, Hjallabraut 51, klukkan 14:00-17:00. „Við ætlum að halda upp á afmælið allt árið og blásum til sérstakrar afmælishátíðar sumardaginn fyrsta,“ segir Bjarni Freyr Þórðarson, félagsforingi Hraunbúa. Önnur starfsemi félagsins á árinu verði síðan með afmælisívafi.
Herforinginn Robert Baden-Powell (22. febrúar 1857–8. janúar 1941) lagði grunninn að skátahreyfingunni um víðan heim með sýnikennslu árið 1907 og opinberri stofnun Bresku skátahreyfingarinnar árið 1910. Ingvar Helgason kynntist starfsemi skáta í Danmörku og stofnaði fyrsta íslenska skátaflokkinn árið 1911.
...